Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

78c/1999 Úrskurður frá 25. ágúst 1999 í málinu nr. A-78/1999c

Hinn 25. ágúst 1999 var tekin fyrir í úrskurðarnefnd um upplýsingamál krafa Fjármálaeftirlitsins um að réttaráhrifum úrskurðar, sem kveðinn var upp hinn 16. ágúst sl. í kærumálinu [A] gegn Fjármálaeftirlitinu, auðkennt nr. A-78/1999, verði frestað á grundvelli 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að því er varðar þau gögn, er stofnuninni var gert skylt að veita kæranda aðgang að.

Samkvæmt nefndum úrskurði var staðfest synjun Fjármálaeftirlitsins um aðgang að bréfaskiptum stofnunarinnar við Lífeyrissjóð [B] annars vegar og Lífeyrissjóð [C] hins vegar um fjárfestingar sjóðanna í hlutabréfum fyrirtækja í heimabyggð þeirra, að öðru leyti en því að stofnuninni var gert skylt að veita kæranda aðgang að bréfum sínum til lífeyrissjóðanna, dagsettum 8. júní sl., og svarbréfi Lífeyrissjóðs [B] til stofnunarinnar, dagsettu 10. júní sl.

Af 18. gr. upplýsingalaga, kröfugerð Fjármálaeftirlitsins og eðli máls leiðir að úrlausnarefnið er bundið við þau gögn sem úrskurðað hefur verið að veita skuli aðgang að.

Nefndur úrskurður var birtur kæranda og Fjármálaeftirlitinu hinn 17. ágúst sl. Með bréfi [...] hrl., fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins, dagsettu 20. ágúst sl., var þess krafist að réttaráhrifum hans yrði frestað. Með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, ber að telja kröfu Fjármálaeftirlitsins fram komna innan þess frests, sem settur er í 18. gr. upplýsingalaga.
Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti hans við meðferð kröfu þessarar.

Krafa Fjármálaeftirlitsins er studd þeim rökum að uppi séu í málinu ýmis veigamikil lögfræðileg álitaefni. Vísað er til áður fram kominna röksemda auk þess sem því er sérstaklega haldið fram að það samræmist ekki þagnarskylduákvæði 12. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, að veita almenningi upplýsingar um efnisatriði athugana stofnunarinnar hverju sinni, þ. á m. að þeim spurningum, sem lagðar eru fyrir eftirlitsskylda aðila í tilefni af slíkum athugunum eða við eftirlit að öðru leyti.

Með því að veita aðgang að fyrirspurnum Fjármálaeftirlitsins til lífeyrissjóðanna, dagsettum 8. júní sl., megi auðveldlega sjá að hvaða atriðum í starfsemi lífeyrissjóðanna athugun stofnunarinnar beinist. Fjármálaeftirlitið telur því spurningarnar vera svo tengdar svörum lífeyrissjóðanna við þeim að eðlilegt sé að undanþiggja þær aðgangi. Sama eigi við um bréfi Lífeyrissjóðs [B] til stofnunarinnar, dagsettu 10. júní sl.

Úrskurðarnefnd staðfesti með úrskurði sínum frá 16. ágúst sl. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að synja kæranda um aðgang að svörum lífeyrissjóðanna á grundvelli 12. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 5. gr. upplýsingalaga. Hins vegar taldi úrskurðarnefnd að veita bæri aðgang að bréfum stofnunarinnar til lífeyrissjóðanna, dagsettum 8. júní sl., og svarbréfi Lífeyrissjóðs [B], dagsettu 10. s.m., þar sem þar var að mati nefndarinnar hvorki að finna upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni eða annars konar viðskiptahagsmuni lífeyrissjóðanna eða þeirra fyrirtækja, er í hlut eiga.

Í úrskurði nefndarinnar var sérstaklega áréttað að takmörkunar- og undanþáguákvæði 4.-6. gr. upplýsingalaga vísi ekki sérstaklega til eftirlits hins opinbera með einkaaðilum. Þótt almennur aðgangur að bréfum stofnunarinnar til lífeyrissjóðanna geti veitt upplýsingar um efnistök stofnunarinnar við athugun á starfsemi sjóðanna, hafi ekki verið efni til að synja kæranda um aðgang að þeim á þeirri forsendu, enda hefði stofnunin ekki borið fyrir sig 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga í því sambandi.

Enda þótt kröfugerð Fjármálaeftirlitsins nú sé að hluta til reist á því að takmarka beri aðgang að upplýsingum um efni og efnistök við athugun og eftirlit stofnunarinnar á grundvelli 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, verður þeirri heimild eigi beitt á grundvelli almennra hugleiðinga um að aðgangur almennings að slíkum upplýsingum kunni að torvelda og draga úr árangri eftirlits af hálfu stofnunarinnar.

Í 18. gr. upplýsingalaga segir: "Að kröfu stjórnvalds getur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess." Í athugasemdum við þetta ákvæði frumvarps þess, er varð að upplýsingalögum, segir svo: "Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á."

Úrskurðarnefnd telur að með þessu ákvæði hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik, þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum.

Í ljósi þess sem að framan er rakið er það álit úrskurðarnefndar að í máli þessu eigi undantekningar- eða takmörkunarákvæði upplýsingalaga ekki við um þau gögn, sem úrskurðað hefur verið að veita beri aðgang að. Þá veiti sömu ákvæði ekki heimild til að taka tillit til þeirrar málsástæðu Fjármálaeftirlitsins að aðgangur að fyrirspurnum þess sé almennt til þess fallinn að torvelda og draga úr árangri eftirlitsins. Að þessu virtu telur nefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns frá 16. ágúst sl. skv. 18. gr. upplýsingalaga. Ber því að hafna kröfu Fjármálaeftirlitsins.

Úrskurðarorð:

Kröfu Fjármálaeftirlitsins um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar frá 16. ágúst 1999 þess efnis að skylt sé að veita aðgang að bréfum Fjármálaeftirlitsins til Lífeyrissjóðs [B] og Lífeyrissjóðs [C], dagsettum 8. júní sl., og að bréfi Lífeyrissjóðs [B] til Fjármálaeftirlitsins, dagsettu 10. júní sl., er hafnað.

Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum